Ég þakka allar athugasemdir um námskeiðið og kennsluna á vormisseri 2015.
Það er rétt að hafa í huga að þriðjungur nema í báðum hópum svaraði.
Ég vil nota tækifærið til þess að bregðast við athugasemdum
í einlægni og án nokkurs háðs eða skamma:




RAF402G Rafsegulfræði:
----------------------

Hvað telur þú að hafi heppnast vel í þessu námskeiði ?
--------

> Mjög flott - Viðar er alltaf til í að hjálpa okkur ef við höfum spurningar, 
> það er til nóg af sýnidæmum og gömlum prófum til að skoða.

> Dæmaskammtarnir eru mjög góðir þót þeir séu flóknir og Viðar er frábær 
> við að aðstoða nemendurna í að leysa þau þannig að maður lærir mikið af þeim.

> Kennslan hefur verið til fyrirmyndar, námsefnið er krefjandi og skemmtilegt 
> (sérstaklega skemmtileg stærðfræði bakvið þetta allt saman). 
> Kennarinn er greinilega áhugasamur um námsefnið og gefur góð svör við spurningum. 
> Einnig finnst mér fyrirkomulagið með skrifstofutímana frábært, þ.e. ekkert mál 
> að koma við og spyrja spurningar.


Hvað telur þú að bæta megi í þessu námskeiði ?
--------

> Þetta er gríðarlega þungt efni og bókin sem er til hliðsjónar er mjög erfið lestrar. 
> Ég væri til í að sjá dæmi sem að eru með einingum og fylgja formúlum - ég held að 
> maður fái betri tilfinningu fyrir hvað maður er að gera. 
> Þá fáum við tilfinningu fyrir stærðargráðum á hlutum og það er auðveldara að halda 
> bókhald á hvaða einingar eru að falla út og koma inn.

Í stað eininga hef ég lagt áherslu á víddargreiningu í lausnum mínum.
Hún er bráðnauðsynleg áður en reynt er að teikna upp lausnir í
grafíkkerfi. Ég hef líka lagt áherslu á grafík til að auka skilning
á lausnum. 

> Efnið er mjög flókið, sem væri ekki svo slæmt ef það væri kennt aðeins öðruvísi 
> í fyrirlestratímunum. Það er nánast ómögulegt að fylgja eftir í tímum og 
> sérstaklega þegar sýnidæmin eru tekin á glærum. Mætti nota töfluna meira í að 
> leiða nemendur gegnum efnið, sérstaklega sýnidæmin.

Hér gefst þá tækifæri til að hægja á mér við yfirferð sýnidæma og
spyrja meir, ræða aðferðir og forsendur. Ég get vel skilið að fyrirlestur
verði leiðinlegur ef hann er sprell eins manns. Best væri ef hann gæti
orðið gagnvirkari. Ég hef ekki trú á að það gerist ef fyrirlesari og
nemendur eru uppteknir við skriftir.  

> Ekkert sem mér dettur í hug.

> Glærur kennara eru allar handskrifaðar og torskilnar. 
> Heimadæmi eru mjög erfið.

Þær eru handskrifaðar vegna þess að ég vil eyða tíma í að fást við 
innihaldið, frekar en haminn. Ef þær eru erfiðar að skilja þá er um
að gera að spyrja. Engar spurningar eru 'vitlausar'. Það er um að
gera að þora. Mér finnast íslenskir nemendur vera frekar spurningafælnir
miðað við mörg lönd sem ég hef starfað í. Ég veit ekki hvers vegna, en
ég bið ykkur um að þora að spyrja. Skemmtilegustu tímarnir hafa verið
þegar ég hef haft nemendur í hópnum sem hafa varpað þessum hömlum af
sér.  

Já, dæmin eru erfið. Þau eru flest heimasmíðuð til þess að ekki sé 
hægt að finna beina lausn í lausnarhefti. Þess vegna bíð ég upp á
heimsóknir á skrifstofuna mína og svara öllum spurningum um dæmareikninginn
þar. Líka röð spurninga sem vakna þar þegar nemendur eru að glíma
við þau. Ég held að þannig læri nemendur miklu frekar en ef þeir
freistast til afritunar úr lausnarhefti. Fyrir nokkrum árum þegar
ég notaði dæmin úr bókinni voru lausnir mjög einsleitar og aðeins
fáir nemendur nýttu einstaklingsfrelsi sitt í dæmareikningi. 


EÐL401G Rafsegulfræði 1:
------------------------

> Hvað telur þú að hafi heppnast vel í þessu námskeiði ?
--------

> Kennari á skilið hrós fyrir að vera áhugasamur.

> Gott að hafa aðgang að lausnum á gömlum dæmum.

> Viðar er frábær kennari. Handskrifuðu nóturnar pirra einhverja, en ekki mig. 
> Mér finnst líka frábært að geta alltaf spurt Viðar út í dæmin.



Hvað telur þú að bæta megi í þessu námskeiði ?
--------


> Það væri mun betra ef dæmin væru reiknuð í dæmatímunum. Það gerir ekkert 
> fyrir mig að lesa lausnina upp af glærum, og ég get alveg eins gert það 
> heima hjá mér. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta atriði. 
> Einnig er frekar óþægilegt að dæmin sem við reiknum eru úr efni sem 
> farið var í í fyrirlestrum tveimur vikum áður, og er því ekki lengur 
> ferskt í minn.

Seinkun dæmaviðfanga miðað við fyrirlestra er gerð að ráðnum hug.
Þannig gefst tími til að lesa bókina og kynna sér grunninn áður en
glímt er við dæmin. Lausnin er kynnt með glærum og rædd. Það gefur
nemendum tíma til að spyrja spurninga og ræða lausn. Ég hef áhyggjur ef
nemendur álíta að nóg sé að lesa yfir lausn heima. Það er ekki mín 
reynsla úr námi. 

> Það að Viðar notar bara handskrifaðar glósur og varpar þeim uppá töflu 
> er algjörlega gagnslaust. Hann fer ekki einu sinni yfir skiladæmin uppá 
> töflu heldur varpar hann því uppá skjá og bendir á lausnina. 
> Það er eitthvað sem ég get gert heima hjá mér. 
> Handskrifuðu glærurnar eru beint uppúr bókinni, svo talar hann um þær 
> í tíma og skrifar mikilvægustu hlutina ekki á töflurna eða í glærurnar sjálfar. 
> Lélegustu fyrirlestrar sem ég hef setið í HÍ sem er mjög leiðinlegt því 
> það er greinilegt að Viðar veit hvað hann sé að tala um en hvernig hann 
> kennir áfangan þá nær hann ekki að koma því frá sér. 
> Hætta með handskrifuðu glærur og nota tíma í að skrifa það uppá töflu 
> sjálfur sama þó það taki mögulega meiri tíma, en allir aðrir kennarar gera 
> það og ætti það því ekki að vera stór mál.

Glærurnar eru um þá hluti sem mér finnast mikilvægastir í námsefninu.
Þær eru til að draga saman mikilvægustu atriðin úr bókinni. Ef við erum
ekki sammála um það þá er eitthvað að farast á mis í samskiptum okkar. 
Tíminn sem annars færi í uppskrift nýtist í umræður og athugasemdir.
Þar er mikilvægt að nemendur séu þátttakendur. 
Ég hef mikið hugsað um fyrirlestra og borið saman með og án töfluskriftar.
Með glærum finnst mér nást meira samband við nemendur ef þeir hafa áhuga.
Það getur einnig verið meiri tími til umræðna. Ég efast um að allir aðrir
kennarar skrifi á töfluna. Það ræðst örugglega að einhverju leiti af hefð
innan hvers sviðs. Án hroka finnst mér að ég sé einnig orðinn nógu gamall 
til að fara mínar eigin leiðir í kennslu og rannsóknum. Ég er ekki 
með neinar endalegar lausnir í þeim málum, en ég leita fyrir mér.   


> Það væri mjög gott að hafa stoðtíma þar sem námsefnið er mjög erfitt. 
> Mjög erfitt er að fylgjast með í tímum þar sem kennarinn er með 
> glærur en skrifar ekki upp á töflu.

Í staðinn hafa nemendur aðgang að glærunum á vefnum og hafa ekki þurft að
eyða tíma í uppskrift.

Ég hef boðið nemendum upp á að koma á svæðið fyrir framan skrifstofuna
mína og spyrja spurninga um dæmareikning þar og glíma við dæmin í samvinnu
við aðra nemendur. Mæting hefur verið mjög góð og ég tek eftir að margir
nemendur sem þangað koma sýna miklar framfarir í dæmareikningi.
Þetta er sá þáttur í kennslunni sem ég er ánægðastur með.  

Að lokum vil ég nefna að ég held að engum takist að læra rafsegulfræði
til nokkurar hlítar í einni yfirferð eða í einu námskeiði. Ég viðurkenni
fúslega að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Það er þess vegna sem ég
hef gaman af þessari kennslu. Ég óska mér þess að þið notið tækifærið 
til þess að læra eitthvað nýtt um rafsegulfræði í stað þess að glíma við 
fyrirlestrastíl minn og hafið í huga að ef þið ætlið ykkur að komast 
í frekara nám eða rannsóknir eigið þið örugglega eftir að koma oft aftur að
rafsegulfræðinni. Hún er miklu víðfeðmari og flóknari en ykkur rennur grun 
í núna. Við erum rétt að snerta grunninn.   


--
Viðar Guðmundsson
20.02.2015