Ég þakka allar athugasemdir um námskeiðið og kennsluna á vormisseri 2014. Ég vil nota tækifærið til þess að bregðast við athugasemdum í einlægni og án nokkurs háðs eða skamma: RAF402G Rafsegulfræði: ---------------------- > Hvað telur þú að hafi heppnast vel í þessu námskeiði? > Þetta er mjög áhugavert námsefni og kennarinn er frábær. > Það er mjög mikilvægt að geta komið og spurt kennarann um > einhver atriði og hann gefur góð svör. Ég vona að ef einhverjir nemendur hafi ekki nýtt sér að koma á skrifstofuna með spurningar þá viti þeir af þessum möguleika núna. > Góður kennari, kann efnið vel og er tilbúinn að svara spurningum. > Hvað telur þú að bæta megi í þessu námskeiði? > Væri gott ef við reiknuðum fleiri einföld dæmi, > skiladæmin eru stundum full þung og megnið af > nemendum reiknar ekki tímadæmin. > Mjög erfiður áfangi og erfitt námsefni! > Mjög erfitt að fylgjast með í tímum þegar > kennarinn einungis les af glærum, (þe. skrifar ekkert á töflu) > þannig finnst mér hann ekki ná að útskýra efnið nógu vel. > Hann mætti taka fleiri sýnidæmi. Ég held að margir séu sammála mér, > þar sem fáir mæta í þessa tíma Alltof erfið verkefni. > lélegarar glærur, sem hjálpa ekki mikið við verkefnin. > Kennari gerir einnig lítið úr nemendum, þegar hann segir > "þetta er grunnskóladæmi", ekki er víst að allir skilji dæmið svo vel. Þegar nemendur hafa þessa tilfinningu óska ég eftir spurningum frá þeim til þess að benda mér á hvar þeir eiga í erfiðleikum. Ég er nokkuð viss um að saman gætum við gert betur, en til þess verð ég að fá athugasemdir frá nemendum í fyrirlestrum og dæmatímum. Já, efnið er erfitt, mjög erfitt, og skilningur kemur aðeins með mikilli stöðugri vinnu, og hann kemur í skrefum. Þegar ég var sjálfur nemi mætti ég í alla fyrirlestra hjá góðum og miður góðum kennurum. Ég lærði í þeim öllu, því sá skilningur sem ég fékk við fyrsta lestur var oft rangur eða byggður á einfölduðum puttareglum sem höfðu ekki almennt gildi. Oft kom svo í ljós í dæmatímum að skilningurinn var enn ekki kominn í lag. Enn í dag sé ég ýmsa fleti og fyrirbæri í rafsegulfræði sem ég læri betur við hverja yfirferð. Ég er enn að læra og vona að það muni aðeins halda áfram. Það er líka nákvæmlega sá þáttur sem gerir að ég hef gaman að rafsegulfræðinni. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, sem getur nýst mér í rannsóknum, við kennslu, eða bara í lífinu. Fyrirlestarnir byggjast að miklu leyti á sýnidæmum úr bókinni. Ég vona líka að í hverjum fyrirlestri segi ég miklu meira en standi á glærunum. Það er oft umfjöllunin um þær sem skiptir höfuðmáli. Fyrirlestranóturnar koma aldrei í stað kennslubókarinnar, en þeir leggja þær áherslur sem ég vil hafa í námskeiðinu. Ég biðst afsökunar hafi ég einhvern tíman gert lítið úr nemendum. Ég man bara eftir að hafa nefnt að þið hafið lært eitthvað í framhaldsskóla sem í raun er ekki alveg rétt og við verðum núna að horfa á með öðrum skilningi. Ég man of vel eftir eigin erfiðleikum við nám til þess að gera lítið úr erfiðleikum ykkar. Ég viðurkenni að ég þurfti að koma oft að sama námsefninu til að fá skilning á því og á hverjum tímapunkti læddust inn "puttareglur og misskilningur" sem ég varð síðan að hreinsa út síðar í námi. En ef við lítum á stöðu okkar almennt í tilverunni: Er það ekki þannig sem við lærum alltaf? EÐL401G Rafsegulfræði 1: ------------------------ > Hvað telur þú að hafi heppnast vel í þessu námskeiði? > Námsefnið er vel afgreitt. Viðar lætur lítið liggja á milli hluta > og bendir á hvar fræðin er ófullkomin og hvar ekki. Rafsegulfræðin er á engann hátt einföld. Við erum að kynna okkur frekar einfalt líkan af rafsegulfræði á stórsæjum skala. Við gerum miklar einfaldanir um efni á stórsæjum skala og því er nauðsynlegt að vita hvernær það líkan bregst. Ég vonast til þess að mér hafi einnig tekist að nefna ýmsar aðrar nálganir sem við gerum. > Hvað telur þú að bæta megi í þessu námskeiði ? > Mér finnst skilningur minn á rafsegulfræði ekki hafa aukist í námskeiðinu. > Við reiknum mjög abstrakt dæmi, sem er ágætt af og til, en mér finnst allt > of lítið lagt upp úr almennum skilningi á efninu. > Ég nota bara formúlur úr bókinni og gamlar lausnir til að leysa dæmi > en hef enga tilfinningu fyrir því hvað ég er að gera. Í rafsegulfræði eru notuð ýmis abstrakt hugtök til þess að lýsa eðlisfræðilegum veruleika. Ég reyni eftir megni að nota fyrirlestrana og dæmin til þess að auka skilninginn. Til þess eru þeir. Þar fer ég yfir aðalatriðin og reyni að draga fram skilning með tengingum við sýnidæmi og fyrirbæri í náttúrunni. Ég hef áhyggjur af athugasemdinni um dæmareikninginn. Þau ykkar sem hafa þessa tilfinningu bið ég að hugleiða aðferðafræðina í smá stund. Við erum að fjalla um abstrakt hugtök sem lýst er með jöfnum. Til þess að skilja þær reynum við að leysa þær fyrir mismunandi tilvik og uppsetningar. Þannig öðlumst við skilning á þeim. Lausnir eldri dæma og prófa á netinu eru aðeins til hliðsjónar og til þess að ýta ykkur af stað og til samanburðar. Ég efast um að margir kennarar hafi jafn stórt safn sýnidæma á vef þeirra við HÍ. Það er engin ástæða til þess að skrifa niður skref í lausn nema við skiljum það. Ef ekki þá er ástæða til þess að ræða það við kennarann eða samnemendur. Við verðum að vera heiðarleg við okkur sjálf. Eins bið ég ykkur um að spyrja í dæmatímum og fyrirlestrum ef skilning vantar, til þess eru þeir. Með fyrirlestrum og dæmatímum er ég að bjóða upp á tækifæri til viðræðna um efnið til þess að auka skilning okkar. > Notast mætti meira við raunverulega grafík, > ekki aðeins handteiknaðar myndir og gnuplöt gröf. Hér viðurkenni ég að ég veit ekki hvað er þá "raunveruleg grafík". Ég hélt að við værum með handteiknuðum gröfum og tölvuteiknuðum, t.d. úr gnuplot, að reyna að myndgera abstrakt hugtök og fyrirbæri eins og raf- og segulsvið sem við sjáum ekki í náttúrunni en getum mælt. > það má gera efnið skiljanlegra frá kennaranum. > Einnig má fara betur í grunnatriði, áður en byrajð er > Hafa fyrirlestrana aðeins auðveldari skilnings > svo einhver áhugi sé fyrir hendi til þess að mæta í þá, > einnig eru heimadæmin mjög erfið... Í sjálfu sér er > þetta ekki auðvelt efni en það væri hægt að gera ýmislegt > til þess að létta nemendum lærdóminn, eins og að hafa > skiljanleg dæmi, glósur og þar fram eftir götunum. Ég er sammála, rafsegulfræði er erfið. Skilningur fæst ekki á henni nema með mikilli vinnu. Ég er að reyna að auðvelda þá vinnu með fyrirlestrum og dæmatímum þar sem nemendur geta spurt að vild. Ég reyni líka eftir megni að hafa stórt safn sýnidæma á netinu fyrir nemendur. Ég eyði flestum helgum á misserinu til að reikna þau og gera eins aðgengileg og hægt er. Á þessu læri ég nýja hluti um rafsegulfræði á hverju misseri, eða finn nýja fleti á henni sem gagnast mér í rannsóknum og kennslu. Ef nemendur eru ekki ánægðir með fyrirlestranótur og dæmaskýringar þá verða þeir að spyrja í fyrirlestrum og dæmatímum til þess að benda mér á hvar erfiðleikar liggja. Kennslan og kennsluefnið verður að þróast með viðræðum um það. -- Viðar Guðmundsson 22.02.2014