Prófið fór bæði vel og illa. Mig grunar að það hafi ekki verið þyngra en undanfarið.
Í mínum hluta var helmingur dæmanna (2 og 3) léttur. Fyrsta dæmið var heldur ekki
erfitt, en 4. dæmið var aðeins snúnara. Dæmin voru öll úr kennslubókinni og í beinu
framhaldi af dæmareikningi í vor. Þar stóð einmitt hnífurinn í kúnni. Hluti nemenda
ákvað að ekkert væri upp úr dæmareikningi að hafa og kepptist við að finna lausnir
dæma í lausnaheftum og á netinu. Þær lausnir voru allar mjög keimlíkar, og gátu
aðeins reynt á þýðingar- og afritunarhæfni viðkomandi. Einn nemandi varð þó af
þeirri æfingu þegar hann gleymdi að þýða lausnina yfir á íslensku. (Íslenska er ekki
skilyrði fyrir lausnirnar, þær má senda eins inn á ensku, þýsku eða esperanto hafi
einhver áhuga á því). Þessir sömu nemendur höfðu lítinn áhuga á dæmatímum og því fór
sem fór að mínu mati. Mín reynsla er að enginn geti lært rafsegulfræði án verulegrar
æfingar í dæmareikningi. Til viðbótar er nauðsynlegt að lesa kennlsubókina og mjög
mikil æfing getur fengist af samvinnu um dæmareikning og umræðu um dæmin. Efnið er
erfitt og skemmtilegt og rafsegulfræðin verður aldrei lærð með einföldum aðferðum
utanaðbókarstefnunar.
Viðar Guðmundsson
12. maí 2008