Dreifing einkunna í Eðlisfræði 2 V og R vorið 2007
Fjöldi mynda: 2
Gert: Þriðjudaginn 8. maí 2007
E-2-RV07.png
|
E-2-VV07.png
|
Prófið ásamt lausnum er að finna á slóð: http://hartree.raunvis.hi.is/~vidar/Nam/EII_Prof/index.php
Í vorprófi 2006 spurðu allmargir nemendur um þýðingu almennra íslenskra orða, því var prófið núna
bæði á ensku og íslensku fyrir alla. Það var þó eftirtektarvert að meirihluti nemenda teiknaði láréttu
fánastöngina í dæmi 3 lóðrétta. Eins breyttu nokkrir nemendur einangraranum í dæmi 1 í leiðara.
Það veldur mér áhyggjum að aðeins örfáir nemendur gátu notað Gauß-setninguna til þess að leysa fyrsta
dæmið. Þar kemur ekkert flókið heildi fyrir, en flestir skildu ekki að a-liður bendir á hvar er best
að hafa einn hluta Gauß-yfirborðsins. Margir vildu troða Coulomb jöfnunni fyrir rafsviði einnar hleðslu
inn í heildið og týndu þannig þræðinum. Aðeins örfáir mundu eftir að heildarhleðslan innan Gauß-yfirborðsins
skiptir sköpum um niðurstöðuna. Í lausnum nemenda var spennu og rafsviði oft ruglað saman og
talað um hleðslu og afhleðslu spólu. Nemendum í námskeiðunum hefur fækkað verulega og í þetta skiptið
þurftum við að skala hráar prófeinkunnir meira til en undanfarin ár. Ég hef áhyggjur af því að sókn
nemenda í fyrirlestra og dæmatíma hefur minnkað verulega. Ein skiljanleg afsökun gæti verið að
ég set alla fyrirlestra á vefinn, en ég tek líka eftir því að margir nemendur ná ekki í fyrirlestrana
fyrr en örfáum dögum fyrir próf. Í fyrirlestrunum er mikið reiknuð dæmi af þessum gerðum sem koma á
prófunum og þó nokkrum tíma eytt í að sýna hagnýtingu Gauß-setningarinnar.
Það má örugglega benda okkur kennurum námskeiðisins á all nokkra hluti sem við gætum lagfært, og ég
vona að við séum stöðugt að reyna að bæta okkur, en því miður undirstrika niðurstöðurnar enn frekar
álit mitt að nemendur átti sig ekki vel á breytingunni milli aðferðarfræðinnar sem beitt er við
eðlisfræðinám í framhaldsskóla og HÍ. Námsefnið hefur komið fyrir áður en við fjöllum um það á
annan hátt. Eins er ekki að neita að ég hef verulegar áhyggjur af undirbúningi nemenda sem koma
til HÍ til náms í verkfræði- og raunvísindadeildum.
Viðar Guðmundsson